föstudagur, 16. maí 2008

Blaut ferð

Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi að maður blotni á leiðinni en það voru nokkur atriði sem ég lagði á minnið á þessari leið minni í morgun sem koma hjólreiðum almennt við.

Þegar leið mín á hjóli liggur einfaldlega frá A til B og ég vil komast það eins hratt og hægt er þá reyni ég að nýta mér það besta á leiðinni, hjóla stíga þegar það er fljótlegast og á götunni þegar það er fljótlegra. Almennt finnst mér, þó það eigi ekki við rök að styðjast, að ég sem hjólreiðamaður eigi að njóta forgangs á umferð akandi ökutækja. Ég menga minna og ég fer almennt hægar og veitir því ekki af tímanum. Þess vegna á ég til að sveigja upp á gangstétt skömmu áður en kemur að gatnamótum til þess að geta farið yfir næstu götu á gangbraut.
Í þessu vali mínu á hjólaleiðum hef ég rekið mig á þá tilhneigingu í hönnun hjólreiðastíga að hafa þá hlykkjótta og þar sem hjólaleiðir liggja á gangstéttum geta verið 90° skarpar beygjur þegar minnst varir. Hjólastígar uppfylla því oft ekki þá kröfu að fara stystu leið. Þetta er ágætt ef maður er í sunnudagshjólatúr með börnin en óvinsælt ef liggur á til og frá vinnu. Þess vegna hneigist maður til að taka götuna.


Tré eru ágæt en á vorin getur komið í ljós að þau hafa vaxið á síðasta ári og þá gjarnan út á stíga og gangstéttir. Það getur verið óþægileg tilfinning að fá stroku á vangann af hrjúfri trjágrein snemma morguns á leið til vinnu, ég tala nú ekki um ef tréð er barrtré.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Í sambandi við stíga, hlykkjur, greið ferð og öryggi - já og hjólreiðar á akvegum sem vænan kost: Mæli með fyrirlestrum John Franklin sem kom til landsins í fyrra í boði Landssamtaka hjólreiðamanna. Páll Guðjónsson hefur þýtt einum fyrirlestri og sett á vef fjallahjólaklúbbsins :
Samgönguhjólreiðar

Annan fyrirlestur John má lesa í síðasta tölublaði Hjólhestins, sem fjallahjólaklúbbrurinn gefur út og dreifir viða.

Já og á bloggi LHM má sjá myndskeið með John ( í lopahúfu :-) , birt á Stöð 2 í fyrra haust.

Á sunnudaginn n.k. byrjar námskeið fyrir framtíða hjólakennara samkvæmt þessum fræðum, og svo mun Breski kennarinn kynna Hjólafærni í hádeginu fimmtudaginn 22. maí hjá ÍSÍ í Laugardalnum.