Hið eilífa viðfangsefni hjólreiðamannsins sem er á leið til vinnu er sviti. Þessi náttúrulegi kælivökvi sem líkaminn myndar þegar hann hitnar inniheldur að mestu leyti vatn en einnig uppleyst sölt og mismikið af úrgangsefnum. Þetta væri í sjálfu sér ekki vandamál ef um hreint vatn væri að ræða, þá þyrfti ekki annað en létta sveiflu með handklæði og málið leyst. En það vill loða við svita að honum fylgir lykt sem myndast þegar bakteríur byrja að vinna með þetta mjög svo áhugaverða efni. Þessi lykt fellur fólki misvel í geð og framleiðandi eða eigandi lyktarinnar ekki alltaf
meðvitaður um viðhorf annarra til hennar. Hér verður ekki fjallað um áhrif svitalyktar á hormónamyndun gagnstæðs kyns.

Á þessu eru nokkrar lausnir. Ein er að skola af sér svitann í þar til gerðu steypibaði eða sturtu. Þessi lausn kallar hins vegar á auka klæðnað og aðstöðu til þvotta auk þess tíma sem fer í tilstandið.
Önnur lausn er að stilla hraða í hóf. Minnka hitamyndun líkamans og þannig koma í veg fyrir svitamyndun. Þetta er löngu viðurkennd aðferðafræði og sýnt fram á að tímamismunurinn oftast hverfandi þegar allt er talið.
Þessu til viðbótar getur verið gagnlegt að stilla klæðamagni í hóf, gefa lofti færi á að leika um líkamann og kæla hann þannig.
Eins og þeir sem reynslu hafa af hjólreiðum vita þá getur þetta verið hægara um að tala en í að komast, ekki síst þar sem hjólað er í mishæðum en á brattann vill manni gjarnan hitna í hamsi og þá er ekki að sökum að spyrja.
Bakpokar geta örvað svitamyndun, einkum ef þeir liggja þétt að líkamanum. Þess vegna er val á bakpokum mikilvægt atriði í því að þræða þessa línu milli þess að komast eitthvað áfram og að svitna. Til eru bakpokar sem leggjast ekki að bakinu nema á mjög takmörkuðu svæði en eru engu að síður mjög þægilegir.
Að lokum er rétt að það komi fram að tilhneiging til svitamyndunar er talsvert breytileg milli einstaklinga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli