þriðjudagur, 20. maí 2008

Hjólað í jakkafötum


Ertu mormóni? Einhvers konar trúboði? Þetta eru þær spurningar og athugasemdir sem ég fæ oftast að heyra þar sem ég bruna um bæinn. Ég held að það sé eitthvað með það hvernig hjálmurinn og jakkinn kallast á. Það gæti líka verið bakpokinn. Ef ég fer í leikfimi á morgnana þarf ég að burðast með dótið á bakinu og ungu Vottarnir frá Ameríku eru mjög gjarnan með bakpoka við sinn snyrtilega klæðnað. (Sem er kannski ekki svo snyrtilegt?)
Að vissu leyti snýst þetta líka um það að vera í jakka og skyrtu með bindi við hversdagslegar aðstæður sem að frómt frá sagt er ekki svo algengt. Fólki finnst þetta mjög skrýtið því að ég er að gera tvo mjög skrýtna hluti sem jafnvel eru taldir ósamrýmanlegir. Í fyrsta lagi er ég að hjóla sem í raun þykir hálfgert jaðarsport. Í öðru lagi er ég í jakkafötum sem er líka jaðarhegðun á tímum flíspeysna og crocs skóa.
En ég held þessari hegðun áfram ótrauður vitandi að ég á bandamenn víða í Norður Evrópu. Hollenskir jakkalakkar bruna um þetta eða hitt straat á leið til kauphallarinnar eða á básinn sinn í einhverri fjármálastofnun. Danskar skrifstofublækur stíga fákana fast á hjólabrautunum með skjalatöskuna á bögglaberunum. Hjólandi embættismenn allra Evrópulanda sameinist!

Engin ummæli: