fimmtudagur, 22. maí 2008

Skipulag lífs hjólreiðamanns


Hvað stendur í vegi fyrir því að fólk hjóli? Mér þykir það sýnt og sannað að þeir sem einhvern tímann hafi hjólað til og frá vinnu séu líklegri til að hjóla einhvern tímann aftur. Þeir sem aldrei hafa hjólað til vinnu eru erfiður hópur að sannfæra. Augljóslega er einhvers konar þröskuldur sem fólk stígur ekki svo glatt yfir. Sá þröskuldur er að kunna að skipuleggja sig.
Já það er rétt! Það eru ekki gæðin á hjólinu, glansinn á gallanum eða umferðarkerfið sem standa í vegi fyrir að fólk setjist á bak. Þessir hlutir geta hugsanlega haft áhrif á það hversu lengi fólk endist á götunum sem hjólreiðafólk. En fólk veit ekkert um þessa hluti áður en það hefur prófað og því skipta þeir engu máli þá. Að kunna að skipuleggja daginn sinn, ferðir og útbúnað sem hjólreiðamaður krefst ákveðinnar útsjónarsemi og umhugsun sem bíllinn krefst ekki af okkur í eins miklu mæli. Það er ekki beinlínis skemmtilegt að fatta það nýkominn í vinnuna, sveittur á hjólinu, að maður hafi gleymt mikilvægum hlut heima.
Hjólreiðamaðurinn er mjög mikill homo economicus hvað varðar ferða og leiðaval. Vanur hjólreiðamaður er líkt og vatn, velur sér stystu leið minnstu mótstöðu að marki sínu. Ef maður ætlar að stoppa á tveimur eða þremur stöðum á leiðinni heim á hjóli þá er maður búinn að velja leiðina í huganum nokkuð gaumgæfilega áður en maður leggur í hann. Einhvers staðar sá ég rannsókn á bílafólki sem leiddi í ljós að ökumenn í verslunarferð hafa ekki hugmynd um hvert þeir eru að fara eða hvernig þeir ætli að komast á leiðarenda þegar lagt er af stað. Hjólreiðamaðurinn hefur ekki bensín að brenna í svoleiðis vitleysu, hann lætur hverja kaloríu telja.
Hjólamaðurinn þarf líka að velja sér föt og/eða pakka með sér eftir aðstæðum. Í Kaupmannahöfn þótti það fullkomlega eðlileg hegðun meðal samstúdenta minna að hafa hlífðarfatnað til reiðu í bakpokanum ef það skyldi fara að rigna. Það krafðist ekki mikillar hugsunar að pakka regnbuxum fyrir þetta fólk. Nýjum hjólreiðamanni dytti þetta jafnvel ekki í hug en þyrfti að gera stressaða dauðaleit að plöggunum annars.
Það er með hjólreiðar eins og allt annað að því fylgir lærdómskúrfa, brött í byrjun en aflíðandi. Kannski getum við hjálpað nýjum félögum að tækla þessa kúrfu með auðveldari hætti ef við söfnum saman góðum ráðum. Tjáið ykkur!

Engin ummæli: