
Að stunda samgöngur hefur oft orðið uppspretta stórkostlegra hugmynda. Að aka í bíl um langan veg, bíða á rauðu ljósi eða sitja í strætó skapar hugarástand sem gefur hugmyndafluginu lausan tauminn. Vissulega getur það orsakað slysahættu ef hugurinn er ótaminn með öllu. En við þessar aðstæður virðist hugmyndaauðgin blómstra. Nú hef ég hjólað til og frá vinnu á hverjum degi í rúma viku og því gæti verið fróðlegt að bera þetta saman hvað hugmyndaframleiðslu snertir. Ber þá svo við að ekkert gerist, engin ljós kvikna, allt slökkt. Hvað veldur? Fríða segir að það sé of mikið áreiti á hjólaleiðinni minni. Getur verið, oftast er stutt í bílaumferð á leiðinni. Ég næ ekki löngum köflum án þess að þvera götu. Hugurinn nær ekki að komast í trans. Ég sakna þess hálfpartinn. Hvað hefur þessum manni t.d. dottið í hug á hjóli?
1 ummæli:
Þessum manni datt til dæmis í hug að hjóla á lögreglu í Gleneagles hérna um árið ef ég man rétt. Mæli ekki með að þú tileinkir þér hugsanagang hans.
Skrifa ummæli