Bendi á frétt á mbl.is um breikkun hjólastígsins við Ægissíðu eins og hann er kallaður. Þessi stígur er notaður af ótal hjólreiðamönnum og þjónar vel umferðinni frá austri til vesturs um borgina. Sjálfur hjólaði ég hann úr Fossvoginum út í Háskóla um árabil. Ef ég er á leið til mömmu og pabba hef ég einmitt oft hjólað eða skokkað þessa leið til þeirra vestan úr bæ. En þetta eru hugsanlega bestu snertifletirnir við þennan stíg, Vesturbærinn sunnan Hringbrautar og Fossvogsdalurinn. Árbæjarhverfi tengist þessum stíg líka ef farið er um Elliðaárdalinn. Og Breiðholtið á sína snertifleti, sérstaklega Bakkar, Hólar og Mjóddin.
Það sem truflar mig samt við þessa framkvæmd kemur að vissu leyti fram í nafngiftinni, Ægissíðustígur. Ægissíðan er vissulega einn hluti leiðarinnar en í raun ekki sá mikilvægasti. Fossvogur, Öskjuhlíð og Nauthólsvík eru líka á leiðinni. En hann er í raun styrktur af áframhaldi sínu handan Reykjanesbrautar uppi í Árbæ og Breiðholti sem eru samkvæmt þessari skilgreiningu verksins ekki hluti stígsins. Eins og fyrr segir veit ég að stígurinn er mikið notaður bæði sem samgöngustígur og líka til frístundaiðkunar. En er hann sem samgöngustígur heppilegastur þar sem hann er? Hvert er samgöngulegt markmið stígsins? Eða eru þessar aðgerðir ætlaðar til eflingar öryggis með því að aðgreina hraða og hæga umferð frístundanotkunar? Í samgönguverkefnum líkt og öðrum er lykilatriði að hafa markmiðin á hreinu og móta verkefnin að höfuðmarkmiðum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli