föstudagur, 9. maí 2008

Hitað upp án frakka

Ég nota hjólið sem upphitunartæki þrisvar í viku. Ég tek á því á leiðinni í Laugar á morgnana og kem volgur inn í sal. Þetta er náttúrulega besta mögulega nýting á ferðinni. Það er alltaf dálítið gaman að horfa á borgina í svefndrunga þarna um sex leytið á morgnana. Einn og einn stressaðu bankamaður sést þenja jeppann á leiðinni að undirbúa mikilvægan fund. Annars er það ég og fólkið á bak við tjöldin sem erum helst á ferli, blaðberar, strætisvaganbílstjórar og götusóparar. Svo er alltaf einn og einn sem er enn að leita að þessu partíi sem var verið að tala um fyrr um kvöldið.
Þegar allt er svona hljótt og kyrrt er freistandi að beygja reglurnar aðeins, sérstaklega á Hverfisgötunni. Ég læt það eftir mér.
Í morgun var léttur úði sem var bara frískandi. Þegar ég svo var að klæða mig eftir hræðilegan þrektíma hjá Rósu áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt frakkanum mínum heima og varð því að hjóla úr Laugum í Borgartúnið á skyrtunni. Náð veri lofuð, það stytti upp á meðan ég þaut um Borgartúnið.

Engin ummæli: