fimmtudagur, 29. maí 2008
Að sitja kyrr í umferðinni
Það er í sjálfu sér í frásögur færandi að ég notaði bílinn sem samgöngutæki til vinnu í morgun. Það kom mér á óvart hversu mikil umferðin er og það fer töluverður tími í bið eftir að bílaröðin mjakist áfram. Þetta er ólíkt því að þeysa til vinnu á hjóli þar sem heyrir til undantekninga að maður nemi staðar. Bílferðin úr Salahverfi niður í Borgartún er fljótlegri en að hjóla sömu leið en á hjólinu er maður alltaf á ferðinni. Vorið og sumarið fer síður framhjá manni á hjóli, breytingar á gróðri frá degi til dags eru nánast áþreifanlegar þar sem trjágreinar slúta yfir hjólastíginn. Mismunandi blómategundir eru að blómstra í kantinum og fuglar flögra þvers og kruss yfir stíginn og kanínur bíta gras í Elliðaárdalnum. Fyrir náttúruunnandann er því hjólaferðin ákjósanleg svo ekki sé minnst á umhverfisvænleika þessa samgöngumáta. En þetta er líka ábending um að afar æskilegt er að hjólaleiðir liggi um græn svæði þar sem náttúran skartar fjölbreytileika sínum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli