Að eigin mati var ég nokkuð flott í gærmorgun þegar ég hjólaði framhjá bílstjóra umhverfisráðherra í Laugardalnum. Ég á leið í vinnu með tölvuna á bakinu og á háuhælunum sem heima ganga undir heitinu fundarskórnir. Ég er þróa "outfittið" - það er greinilega mikilvægt að vera rétt klæddur. Ég hef sannreynt á síðustu dögum að hlífðarfötin þurfa að vera vatnsheld. Ég hjólaði að heiman á mánudag í sól og blíðu og heim í ausandi rigningu- eins og hún gerist blautust. Þannig að regnfötin eru nauðsynleg í pokann á hverjum degi.
Börnin segja að hjólið sé gamalt og ljótt. En ég er að stefna að því að taka þetta á danska mátann- þ.e. "ligeglad" og án þess að þurfa að fara á eyðslufyllerí í hjólabúðunum, með kaupi á nýju hjóli og hjóladressi. Það er bara að njóta og taka inn vorið. Það er stórkostlegt að anda að sér asparilmi og sjá muninn á vorinu frá morgni til kvölds þessa dagana í Laugardalnum. Ég fíla þetta bara í botn - á fundarskónum.
fimmtudagur, 8. maí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli