fimmtudagur, 29. maí 2008

Að sitja kyrr í umferðinni

Það er í sjálfu sér í frásögur færandi að ég notaði bílinn sem samgöngutæki til vinnu í morgun. Það kom mér á óvart hversu mikil umferðin er og það fer töluverður tími í bið eftir að bílaröðin mjakist áfram. Þetta er ólíkt því að þeysa til vinnu á hjóli þar sem heyrir til undantekninga að maður nemi staðar. Bílferðin úr Salahverfi niður í Borgartún er fljótlegri en að hjóla sömu leið en á hjólinu er maður alltaf á ferðinni. Vorið og sumarið fer síður framhjá manni á hjóli, breytingar á gróðri frá degi til dags eru nánast áþreifanlegar þar sem trjágreinar slúta yfir hjólastíginn. Mismunandi blómategundir eru að blómstra í kantinum og fuglar flögra þvers og kruss yfir stíginn og kanínur bíta gras í Elliðaárdalnum. Fyrir náttúruunnandann er því hjólaferðin ákjósanleg svo ekki sé minnst á umhverfisvænleika þessa samgöngumáta. En þetta er líka ábending um að afar æskilegt er að hjólaleiðir liggi um græn svæði þar sem náttúran skartar fjölbreytileika sínum.

þriðjudagur, 27. maí 2008

Ef ég væri guð

Þessi færsla hefur ekkert með málefni hjólreiðamanna að gera, en taldi að hún gæti þótt gagnast einhverjum. Hún sýnir á svolítið spaugilegan hátt hvernig er komið fyrir okkar allsnægtarþjóðfélagi. Dóttir mín, 9 ára, spurði mig um helgina eftirfarandi spurningu: "Pabbi, ef þú værir guð, myndir þú láta krónuna hækka?"
Ekki var spurt um viðbrögð mín við náttúruhamförum í Kína og Búrma, matarskorti í Afríku og mannréttindabrot víða um heim. Nei, það voru efnahagsmálin á Íslandi!! Það gera börnin sem fyrir þeim er haft.

ps. búinn að selja bílinn, nýbygginguna, PS3, snjósleðan, sumarhúsið, Armani jakkafötin, motorcross hjólin o.fl. til að öðlast innri ró!

mánudagur, 26. maí 2008

Keppninni lokið - hjólum áfram, bloggum

Dyggir lesendur og hjólagarpar bloggsins þurfa ekki að örvænta. Við munum halda áfram okkar færslu á dag þangað til að þrekið þrýtur. Margir úr okkar hópi munu líka halda áfram að hjóla þótt einhver svindl keppni sé búin. Það væri nú gott að heyra frá fólki, hvort það ætli sér að halda áfram að hjóla út sumarið a.m.k. Svo þegar haustið kemur getum við farið að tala um veður- og hálkuvarnir. Það býður upp á mikla vöruumfjöllun sem er skemmtileg.
Í sumar verður fókusinn meira á vana og hegðun hjólreiðamannsins auk umræðu um hjólreiðakerfið. Vonandi umræðunni til upplyftingar og okkar eigin skilningi á þessu samgöngufyrirbæri sem hjólreiðar eru.

föstudagur, 23. maí 2008

Hjól og sviti

Hið eilífa viðfangsefni hjólreiðamannsins sem er á leið til vinnu er sviti. Þessi náttúrulegi kælivökvi sem líkaminn myndar þegar hann hitnar inniheldur að mestu leyti vatn en einnig uppleyst sölt og mismikið af úrgangsefnum. Þetta væri í sjálfu sér ekki vandamál ef um hreint vatn væri að ræða, þá þyrfti ekki annað en létta sveiflu með handklæði og málið leyst. En það vill loða við svita að honum fylgir lykt sem myndast þegar bakteríur byrja að vinna með þetta mjög svo áhugaverða efni. Þessi lykt fellur fólki misvel í geð og framleiðandi eða eigandi lyktarinnar ekki alltaf meðvitaður um viðhorf annarra til hennar. Hér verður ekki fjallað um áhrif svitalyktar á hormónamyndun gagnstæðs kyns.

Á þessu eru nokkrar lausnir. Ein er að skola af sér svitann í þar til gerðu steypibaði eða sturtu. Þessi lausn kallar hins vegar á auka klæðnað og aðstöðu til þvotta auk þess tíma sem fer í tilstandið.

Önnur lausn er að stilla hraða í hóf. Minnka hitamyndun líkamans og þannig koma í veg fyrir svitamyndun. Þetta er löngu viðurkennd aðferðafræði og sýnt fram á að tímamismunurinn oftast hverfandi þegar allt er talið.

Þessu til viðbótar getur verið gagnlegt að stilla klæðamagni í hóf, gefa lofti færi á að leika um líkamann og kæla hann þannig.

Eins og þeir sem reynslu hafa af hjólreiðum vita þá getur þetta verið hægara um að tala en í að komast, ekki síst þar sem hjólað er í mishæðum en á brattann vill manni gjarnan hitna í hamsi og þá er ekki að sökum að spyrja.

Bakpokar geta örvað svitamyndun, einkum ef þeir liggja þétt að líkamanum. Þess vegna er val á bakpokum mikilvægt atriði í því að þræða þessa línu milli þess að komast eitthvað áfram og að svitna. Til eru bakpokar sem leggjast ekki að bakinu nema á mjög takmörkuðu svæði en eru engu að síður mjög þægilegir.

Að lokum er rétt að það komi fram að tilhneiging til svitamyndunar er talsvert breytileg milli einstaklinga.

fimmtudagur, 22. maí 2008

Skipulag lífs hjólreiðamanns


Hvað stendur í vegi fyrir því að fólk hjóli? Mér þykir það sýnt og sannað að þeir sem einhvern tímann hafi hjólað til og frá vinnu séu líklegri til að hjóla einhvern tímann aftur. Þeir sem aldrei hafa hjólað til vinnu eru erfiður hópur að sannfæra. Augljóslega er einhvers konar þröskuldur sem fólk stígur ekki svo glatt yfir. Sá þröskuldur er að kunna að skipuleggja sig.
Já það er rétt! Það eru ekki gæðin á hjólinu, glansinn á gallanum eða umferðarkerfið sem standa í vegi fyrir að fólk setjist á bak. Þessir hlutir geta hugsanlega haft áhrif á það hversu lengi fólk endist á götunum sem hjólreiðafólk. En fólk veit ekkert um þessa hluti áður en það hefur prófað og því skipta þeir engu máli þá. Að kunna að skipuleggja daginn sinn, ferðir og útbúnað sem hjólreiðamaður krefst ákveðinnar útsjónarsemi og umhugsun sem bíllinn krefst ekki af okkur í eins miklu mæli. Það er ekki beinlínis skemmtilegt að fatta það nýkominn í vinnuna, sveittur á hjólinu, að maður hafi gleymt mikilvægum hlut heima.
Hjólreiðamaðurinn er mjög mikill homo economicus hvað varðar ferða og leiðaval. Vanur hjólreiðamaður er líkt og vatn, velur sér stystu leið minnstu mótstöðu að marki sínu. Ef maður ætlar að stoppa á tveimur eða þremur stöðum á leiðinni heim á hjóli þá er maður búinn að velja leiðina í huganum nokkuð gaumgæfilega áður en maður leggur í hann. Einhvers staðar sá ég rannsókn á bílafólki sem leiddi í ljós að ökumenn í verslunarferð hafa ekki hugmynd um hvert þeir eru að fara eða hvernig þeir ætli að komast á leiðarenda þegar lagt er af stað. Hjólreiðamaðurinn hefur ekki bensín að brenna í svoleiðis vitleysu, hann lætur hverja kaloríu telja.
Hjólamaðurinn þarf líka að velja sér föt og/eða pakka með sér eftir aðstæðum. Í Kaupmannahöfn þótti það fullkomlega eðlileg hegðun meðal samstúdenta minna að hafa hlífðarfatnað til reiðu í bakpokanum ef það skyldi fara að rigna. Það krafðist ekki mikillar hugsunar að pakka regnbuxum fyrir þetta fólk. Nýjum hjólreiðamanni dytti þetta jafnvel ekki í hug en þyrfti að gera stressaða dauðaleit að plöggunum annars.
Það er með hjólreiðar eins og allt annað að því fylgir lærdómskúrfa, brött í byrjun en aflíðandi. Kannski getum við hjálpað nýjum félögum að tækla þessa kúrfu með auðveldari hætti ef við söfnum saman góðum ráðum. Tjáið ykkur!

miðvikudagur, 21. maí 2008

Auga tígursins

Ég hef því miður slegið örlítið slöku við síðustu tvo morgna. Afsakanir á hreinu, en þetta gengur ekki lengur. Mig vantar hvatningu. Það er erfitt að fá hvatningu þegar maður les skráningartöfluna. Ég með mína 2 x 3 km, meðan nokkrir eru með 2 x13 km. Það er ljóst að ef við fáum verðlaun mun fyrirliðinn ekki segja í míkrafóninn að sigurinn væri fyrst og fremst fyrir dugnað minn og ástundun. Nei, það er nokkuð ljóst.
Hins vegar má ég eiga það að í dagdraumum mínum er fullt af flottum og sigurreyfum myndbútum. Til dæmis sé ég fyrir mér að þegar ég kem inn í VSÓ síðasta dag keppninnar, með hjálminn, sveittur og blautur eftir ferðina að þá heyrist fyrst einmanna klapp. Síðan fjölgar klöppunum og á endanum hafa allir í fyrirtækinu ásamt viðskiptavinum staðið á fætur og klappa fyrir mér. Stefán, Stefán, Stefán. Í Ipodinum heyrist "Eye of the Tiger". . . . . Stundum er maður helvíti flottur.

Frjósama Reykjavík


Gönguferð mín til vinnu er álíka löng og spölurinn sem ég gekk frá kerskála til mötuneytis hér á árum áður í Straumsvíkinni. Helsti munurinn er kannski sá að meiri gróska er á núverandi gönguleið en þar spretta heilu skiltin upp úr gróðurtorfunum.

Kári klári og stelilöggurnar

Það er alveg óhætt að mæla með lestri á blogginu hans Kára Harðarsonar, Kveðið úr kútnum.
Hann fjallar þar um ýmislegt tengt hjólreiðum og hefur m.a. komið upp um hneykslismál nýverið þar sem félag lögreglumanna græðir óbeint á því að ekki sé hægt að skrásetja hjólastell.
Reyndar má í því sambandi benda á að í Kaupmannahöfn verður maður að skrásetja hjólið sitt og hafa kvittun á reiðum höndum fyrir notuðu hjóli. Ef þetta liggur ekki fyrir getur löggan bara gert ráð fyrir því að gripurinn sé stolinn og gert hann upptækan á staðnum. Reyndar sekta þeir líka grimmt fyrir ljóslaus hjól og stundum fyrir að fara yfir á rauðu svo það er nú aðeins önnur löghlýðni þar.

þriðjudagur, 20. maí 2008

Einkabíllinn búinn að fá mikið pláss, komið að öðrum

Einkar ánægjulegt fyrir hjólreiðamenn að sjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarfulltrúa og formanna Skipulagsráðs, segja frá skoðunum sínum á samgöngum. Hún er á því eins og margir aðrir að eftir áralangt dekur við einkabílinn sé kominn tími til að huga betur að öðrum samgönguvalkostum í borginni. Hún nefnir þar sérstaklega hjólreiðar sem einn valkost.
Hægt er að sjá viðtal við hana og Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur skipulagsfræðing í fréttum RÚV.

Vindvist, hljóðvist og sjónvist


Mótvindur er vafalítið versti félagi hjólreiðamannsins. Félagi, því á einu andartaki getur mótvindur breyst í meðvind. Vindur, hversu lítill sem hann virðist vera, hefur tilhneigingu til að verða mun sterkari þegar þeyst er af stað á reiðhjóli og jafnframt hefur hann tilhneigingu til að vera í fangið.

Er þetta ekki bara hluti af því að búa úti í miðju ballarhafi þar sem vindar eiga greiðan aðgang og eru tíðir?

Þegar hjólað er um Laugardal og hluta Elliðaárdals dettur gjarnan á dúnalogn. Trjágróður tekur vindinn í sínar hendur eða greinar og drepur á dreif.

Vinnufélagi minn, fróður mjög, segir mér á hinn bóginn að tré séu ekki vel til þess fallin að drepa niður hljóð og búa til góða hljóðvist meðfram umferðarslagæðum. Tré hafi hins vegar sálræn áhrif sem fái mann til að finnast vistlegra á hjólastíg en það raunverulega er, a.m.k. m.t.t. hljóðs.

Vissulega skyggja tré á útsýni. Útsýni er ágætt svo langt sem það nær en ég persónulega met skjól meira á stofnæðum hjólreiðakerfisins. Þetta þarf að skoða með markvissum hætti samhliða hönnun stíga og skipulagi. Vindvist, hljóðvist og sjónvist þarf því að vega saman.

Hjólað í jakkafötum


Ertu mormóni? Einhvers konar trúboði? Þetta eru þær spurningar og athugasemdir sem ég fæ oftast að heyra þar sem ég bruna um bæinn. Ég held að það sé eitthvað með það hvernig hjálmurinn og jakkinn kallast á. Það gæti líka verið bakpokinn. Ef ég fer í leikfimi á morgnana þarf ég að burðast með dótið á bakinu og ungu Vottarnir frá Ameríku eru mjög gjarnan með bakpoka við sinn snyrtilega klæðnað. (Sem er kannski ekki svo snyrtilegt?)
Að vissu leyti snýst þetta líka um það að vera í jakka og skyrtu með bindi við hversdagslegar aðstæður sem að frómt frá sagt er ekki svo algengt. Fólki finnst þetta mjög skrýtið því að ég er að gera tvo mjög skrýtna hluti sem jafnvel eru taldir ósamrýmanlegir. Í fyrsta lagi er ég að hjóla sem í raun þykir hálfgert jaðarsport. Í öðru lagi er ég í jakkafötum sem er líka jaðarhegðun á tímum flíspeysna og crocs skóa.
En ég held þessari hegðun áfram ótrauður vitandi að ég á bandamenn víða í Norður Evrópu. Hollenskir jakkalakkar bruna um þetta eða hitt straat á leið til kauphallarinnar eða á básinn sinn í einhverri fjármálastofnun. Danskar skrifstofublækur stíga fákana fast á hjólabrautunum með skjalatöskuna á bögglaberunum. Hjólandi embættismenn allra Evrópulanda sameinist!

mánudagur, 19. maí 2008

Staðan


Nú hefst síðasta vinnuvika Hjólað í Vinnuna. Kappsmálið er að gefast ekki upp á lokasprettinum. Ýmsir í liðunum okkar hafa verið að detta út síðustu daga og mikilvægt að menn setjist á bak aftur. Önnur lið eru að narta í okkar forskot sem má helst ekki gerast.
Eins og staðan er núna eru það jafnvel þeir sem lengst fara sem halda uppi dögunum líka. Að vísu er undantekningin Siggi Björns sem hjólar 7 daga vikunnar. Yðar einlægur er líka nokkuð þéttur en er að vísu bara 5 daga á viku maður.
Fyrirtækið er annars búið að taka rúmlega 1050 km á götunum í heildina. Það er alveg hellingur af kílómetrum.

föstudagur, 16. maí 2008

Blaut ferð

Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi að maður blotni á leiðinni en það voru nokkur atriði sem ég lagði á minnið á þessari leið minni í morgun sem koma hjólreiðum almennt við.

Þegar leið mín á hjóli liggur einfaldlega frá A til B og ég vil komast það eins hratt og hægt er þá reyni ég að nýta mér það besta á leiðinni, hjóla stíga þegar það er fljótlegast og á götunni þegar það er fljótlegra. Almennt finnst mér, þó það eigi ekki við rök að styðjast, að ég sem hjólreiðamaður eigi að njóta forgangs á umferð akandi ökutækja. Ég menga minna og ég fer almennt hægar og veitir því ekki af tímanum. Þess vegna á ég til að sveigja upp á gangstétt skömmu áður en kemur að gatnamótum til þess að geta farið yfir næstu götu á gangbraut.
Í þessu vali mínu á hjólaleiðum hef ég rekið mig á þá tilhneigingu í hönnun hjólreiðastíga að hafa þá hlykkjótta og þar sem hjólaleiðir liggja á gangstéttum geta verið 90° skarpar beygjur þegar minnst varir. Hjólastígar uppfylla því oft ekki þá kröfu að fara stystu leið. Þetta er ágætt ef maður er í sunnudagshjólatúr með börnin en óvinsælt ef liggur á til og frá vinnu. Þess vegna hneigist maður til að taka götuna.


Tré eru ágæt en á vorin getur komið í ljós að þau hafa vaxið á síðasta ári og þá gjarnan út á stíga og gangstéttir. Það getur verið óþægileg tilfinning að fá stroku á vangann af hrjúfri trjágrein snemma morguns á leið til vinnu, ég tala nú ekki um ef tréð er barrtré.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Amerískir róttæklingar hjóla á hraðbraut


Sagt er frá hópi amerískra róttæklinga á Autopia blogginu á Wired. Geðþekkur hópur hjólreiðamanna ákvað að taka pláss þar sem þeir eiga það ekki á hraðbrautum í Los Angeles á háannatíma. Við búum nú ekki við mikið eftirlit á reglum um hjólreiðar á hraðbrautum hér á landi enda hraðbrautirnar fáar ef þá einhverjar.
Hins vegar man ég eftir töluverðri umræðu um þessi mál á Reykjanesbrautinni og hvort túristarnir mættu hjóla þessa vinsælu ferðamannaleið eftir að hún yrði tvöfölduð. Ekki veit ég hvort fundin var lausn á því en við Smári J. samstarfsfélagi minn vorum að aka um Reykjanesið um daginn og sáum allnokkra hjólreiðamenn bæði á veginum við Garð og líka á Reykjanesbrautinni.
Undanfarin ár, sennilega meira en áratug hafa hjólreiðamenn reglulega safnast saman í s.k. Critical Mass þar sem leitast er við að fá nógu marga hjólreiðamenn til að hjóla saman að þeir geti tekið yfir göturnar. Þessum aðgerðum má helst líkja við aðgerðir vörubílstjóra hér í borg nema að þrætueplið er plássið sem reiðhjól mega taka á götunum. Ég hef séð auglýsingar um Critical Mass hér á landi en aldrei virðist þátttakan hafa verið nægilega mikil til að það vekti neina athygli.

Í gær var ég snigill

Mágur minn er mótorhjólatöffari og er Snigill. Í leyni hef ég öfundað hann af þessum félagsskap og sérstaklega af samstöðu þeirra. Hún kristallast í því að í hvert skipti sem mótorhjólamenn mætast á göum úti, lyfta hönd af stýri og nikka.
Ég ákvað því í gær, á leiðinni heim, að innleiða þessa hefði í reiðhjólaheiminn. Ég mætti fullt af fólki og lyfti ég hægri eða vinstri hönd eftir því sem við átti. Ég náði, þó ég segi sjálfur frá, mjög kúl nikki með höfðinu. Árangurinn var hins vegar katastrófískur. Það tók enginn undir kveðju mína og mætti ég bara augum sem störðu á mig eða augu sem reyndu að forðast að líta í mín.
Ég ber þá trú í brjósti að þessum skorti á undirtektum sé ekki beint persónulega að mér heldur þurfi ég að þróa kveðjuna þar til að ég hitti á hina einu réttu, sem allir reiðhjólamenn geta tileinkað sér. Ég læt ykkur vita um framvindu málsins.

miðvikudagur, 14. maí 2008

Sjávarstígur breikkaður


Bendi á frétt á mbl.is um breikkun hjólastígsins við Ægissíðu eins og hann er kallaður. Þessi stígur er notaður af ótal hjólreiðamönnum og þjónar vel umferðinni frá austri til vesturs um borgina. Sjálfur hjólaði ég hann úr Fossvoginum út í Háskóla um árabil. Ef ég er á leið til mömmu og pabba hef ég einmitt oft hjólað eða skokkað þessa leið til þeirra vestan úr bæ. En þetta eru hugsanlega bestu snertifletirnir við þennan stíg, Vesturbærinn sunnan Hringbrautar og Fossvogsdalurinn. Árbæjarhverfi tengist þessum stíg líka ef farið er um Elliðaárdalinn. Og Breiðholtið á sína snertifleti, sérstaklega Bakkar, Hólar og Mjóddin.
Það sem truflar mig samt við þessa framkvæmd kemur að vissu leyti fram í nafngiftinni, Ægissíðustígur. Ægissíðan er vissulega einn hluti leiðarinnar en í raun ekki sá mikilvægasti. Fossvogur, Öskjuhlíð og Nauthólsvík eru líka á leiðinni. En hann er í raun styrktur af áframhaldi sínu handan Reykjanesbrautar uppi í Árbæ og Breiðholti sem eru samkvæmt þessari skilgreiningu verksins ekki hluti stígsins. Eins og fyrr segir veit ég að stígurinn er mikið notaður bæði sem samgöngustígur og líka til frístundaiðkunar. En er hann sem samgöngustígur heppilegastur þar sem hann er? Hvert er samgöngulegt markmið stígsins? Eða eru þessar aðgerðir ætlaðar til eflingar öryggis með því að aðgreina hraða og hæga umferð frístundanotkunar? Í samgönguverkefnum líkt og öðrum er lykilatriði að hafa markmiðin á hreinu og móta verkefnin að höfuðmarkmiðum.

þriðjudagur, 13. maí 2008

Hugarflug á hjóli?


Að stunda samgöngur hefur oft orðið uppspretta stórkostlegra hugmynda. Að aka í bíl um langan veg, bíða á rauðu ljósi eða sitja í strætó skapar hugarástand sem gefur hugmyndafluginu lausan tauminn. Vissulega getur það orsakað slysahættu ef hugurinn er ótaminn með öllu. En við þessar aðstæður virðist hugmyndaauðgin blómstra. Nú hef ég hjólað til og frá vinnu á hverjum degi í rúma viku og því gæti verið fróðlegt að bera þetta saman hvað hugmyndaframleiðslu snertir. Ber þá svo við að ekkert gerist, engin ljós kvikna, allt slökkt. Hvað veldur? Fríða segir að það sé of mikið áreiti á hjólaleiðinni minni. Getur verið, oftast er stutt í bílaumferð á leiðinni. Ég næ ekki löngum köflum án þess að þvera götu. Hugurinn nær ekki að komast í trans. Ég sakna þess hálfpartinn. Hvað hefur þessum manni t.d. dottið í hug á hjóli?

Silfurfákur

Stefán silfurfákur
Svalur er
Biðskyldumerki
Ber að virða!

Reglnarugl

Ég mæli með greininni um Reglnarugl á göngustígum eftir Magnús Bergsson í Morgunblaðinu í morgun. Þar er fjallað um það ruglingslega umhverfi sem er á göngustígunum sem allt í einu var sumu breytt í hjólastíga líka. Þetta er að sjálfsögðu dæmi um það þegar metnaður áhrifavalda fer fram úr getu kerfisins til að takast á við breytingar. Hjólreiðakerfið hér í borginni hefur aldrei verið hannað með tilliti til hjóla sem samgöngutækja. Að breyta því með striki á malbik getur reynst óheillaspor frekar en sú framför sem til var ætlast.
(Hlekkur á greinina kemur inn síðar í dag.)

Löng helgi á sófanum að baki

Eftir að mestu óáhugaverða helgi leit það ekki svo vel út með hjólið. Þótt um stuttan veg sé að fara þá fannst mér freistandi að taka bara bílinn. Svo fór ég að hugsa um alla skutli túrana sem ég yrði látinn fara, sækja Ingu og Odd* hingað, keyra þau þangað, svo aftur heim og að lokum gæti ég haldið áfram að vinna. Þá var bara einfaldara að fara af stað einn og leyfa þeim að sinna sínum akstri sjálfum í dag. Það er hægt að græða ýmislegt á þessu hjólaveseni.
(* Inga er unnusta mín og Oddur sonur minn rúmra 5 mánaða)

föstudagur, 9. maí 2008

Næstum dáinn

Í þessari fyrstu bloggfærslu lífs míns vil ég minna liðsfélaga mína á að huga að umferðarreglunum. Í morgun, þegar ég þaut eins og vindurinn á silfurfáki mínum, gleymdi ég mér í dagdraumum og hugði ekki að biðskyldumerki. Bíllinn hemlaði og ég nauðhemlaði í bleytunni. Sem betur fer var bíllinn á hægri ferð og enginn skaði hlaust af. Ég vil því nota þetta fyrsta blogg til að biðja ökumanninn á rauða Ford Explorernum afsökunar á hegðun minni. Reyndar hefði þetta ekki gerst ef viðkomandi ökumaður hefði verið duglegur eins og ég og hjólað í vinnuna.

ps. Það var reyndar mjög flott hvernig ég skransaði í bleytunni. Afturhjólið skreið til hægri, hjólið hallaði og það heyrðist rosalega flott skranshljóð.

Blogg um hjólaferðir

Bendi lesendum á nokkuð áhugavert amerískt blogg um það að hjóla í vinnuna eða bicycle commuting eins og það kallast á ensku. Þarna er fjallað um sólskin og regn á hjólastígum í amerískum borgum.

http://bikecommutetips.blogspot.com/


Þekkir annars einhver gott íslenskt orð yfir commute eða commuter? Í sænsku og dönsku er talað um að pendla svona eins og sveiflur fram og til baka í pendúl, sbr. pendeltåg í Stokkhólmi. Ég átta mig ekki alveg á orðsifjafræðinni að baki commute. Koma svo nýyrðamaskínan íslenska!

Hitað upp án frakka

Ég nota hjólið sem upphitunartæki þrisvar í viku. Ég tek á því á leiðinni í Laugar á morgnana og kem volgur inn í sal. Þetta er náttúrulega besta mögulega nýting á ferðinni. Það er alltaf dálítið gaman að horfa á borgina í svefndrunga þarna um sex leytið á morgnana. Einn og einn stressaðu bankamaður sést þenja jeppann á leiðinni að undirbúa mikilvægan fund. Annars er það ég og fólkið á bak við tjöldin sem erum helst á ferli, blaðberar, strætisvaganbílstjórar og götusóparar. Svo er alltaf einn og einn sem er enn að leita að þessu partíi sem var verið að tala um fyrr um kvöldið.
Þegar allt er svona hljótt og kyrrt er freistandi að beygja reglurnar aðeins, sérstaklega á Hverfisgötunni. Ég læt það eftir mér.
Í morgun var léttur úði sem var bara frískandi. Þegar ég svo var að klæða mig eftir hræðilegan þrektíma hjá Rósu áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt frakkanum mínum heima og varð því að hjóla úr Laugum í Borgartúnið á skyrtunni. Náð veri lofuð, það stytti upp á meðan ég þaut um Borgartúnið.

fimmtudagur, 8. maí 2008

Sólarferð heim

Örtröð var á stígum í nágrenni Laugardalsins seinni partinn. Gangandi fólk, hjólandi og hlaupahjólandi. Börnin eru skemmtilegt viðfangsefni þegar maður stefnir heim hraðbyr á hjóli. Hvort sem þau eru gangandi eða hjólandi þá er ómögulegt að geta til um hvert leið þeirra muni liggja næstu sekúnduna. Þess vegna er ómæld aðgæsla ómissandi við slíkar aðstæður. Í Elliðaárdalnum flatmöguðu unglingspiltar og böðuðu sig í sólinni eftir bað í vorlegri Elliðaánni. Ég ákvað að skipta ekki niður í þriðja á leiðinni upp Skógarselið.

Á háum hælum og með tölvuna á bakinu

Að eigin mati var ég nokkuð flott í gærmorgun þegar ég hjólaði framhjá bílstjóra umhverfisráðherra í Laugardalnum. Ég á leið í vinnu með tölvuna á bakinu og á háuhælunum sem heima ganga undir heitinu fundarskórnir. Ég er þróa "outfittið" - það er greinilega mikilvægt að vera rétt klæddur. Ég hef sannreynt á síðustu dögum að hlífðarfötin þurfa að vera vatnsheld. Ég hjólaði að heiman á mánudag í sól og blíðu og heim í ausandi rigningu- eins og hún gerist blautust. Þannig að regnfötin eru nauðsynleg í pokann á hverjum degi.
Börnin segja að hjólið sé gamalt og ljótt. En ég er að stefna að því að taka þetta á danska mátann- þ.e. "ligeglad" og án þess að þurfa að fara á eyðslufyllerí í hjólabúðunum, með kaupi á nýju hjóli og hjóladressi. Það er bara að njóta og taka inn vorið. Það er stórkostlegt að anda að sér asparilmi og sjá muninn á vorinu frá morgni til kvölds þessa dagana í Laugardalnum. Ég fíla þetta bara í botn - á fundarskónum.

Fótgangandi krækiber á leið til vinnu

Ekki er laust við að maður finni til smæðar sinnar þegar haldið er á tveimur jafnfljótum útí umferðina. Að vísu er ég þannig í sveit settur að ég þarf ekki yfir margar stórar æðar að skunda, hálf leiðin liggur um Þingholt og þéttbýl stræti sem ágætt er að ganga. En þegar kemur að stærri gatnamótum eins og þau við Sæbrautina og jafnvel sumstaðar á Snorrabraut líður manni eins og krækiberi í helvíti. Það er nefnilega tvennt ólíkt að upplifa umferðarmannvirkin innan úr einkabíl eða óvarður á götunni. Kannski mætti huga betur að upplifun einstaklingsins og öryggistilfinningar hans, til viðbótar við umferðarstaðlana þegar vegamannvirki eru á hönnunarborðinu!?

....En mikið er hressandi að ganga til vinnu snemma að morgni!

Margir á götunum

Á leiðinni upp Hverfisgötuna fór ég að spá hvort þetta væri ekki framtíðarhjólreiðaleið um miðborgina. Hverfisgatan er svona samgöngu öxull frá austri til vesturs. Það þyrfti þó að taka til í bílastæðamálum og gatnamótum ef vel ætti að vera.
Annars var ég að keyra bíl skömmu síðar og sá hreint ótrúlega marga á ferðinni. Á ljósunum við Kringlumýrarbraut og Háaleitisbraut voru 5 hjólreiðagarpar saman komnir á einu horninu og sá sjötti handan götunnar. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér það í Reykjavík. Þátttakan í Hjólað í vinnuna hefur greinilega sitt að segja.

Sandur og möl

Ég hjólaði í gegnum Mjóddina í morgun, að mestu eftir hjólastígum. Hjólið skrensaði í nokkrum beygjum þar sem mikill sandur er enn á stígunum. Ég get ekki neitað því að það er meira freistandi að hjóla bara á götunni þegar stígarnir eru svona.
Annars var gott að hjóla, dálítið kalt en rakt og lítill vindur. Hraðamælirinn fór yfirum í brekkunni niður Skógarselið.

miðvikudagur, 7. maí 2008

Hjólað í vinnuna 2008

Í dag 7. maí hófst átakið Hjólað í vinnuna. VSÓ Ráðgjöf, eins og fjölmörg önnur fyrirtæki og stofnanir, tekur þátt í átakinu og eru 22 starfsmenn skráðir þátttakendur. Á þessari síðu er ætlunin að skrifa pistla um eitt og annað sem tengist samgöngum og umhverfismálum og að láta hugann reika. Hugsanlega má hafa af því eitthvert gagn við skipulag samgangna til framtíðar og einnig gaman ef húmoristar taka þátt í þessu bloggi.
T.d. væri áhugavert að safna upplýsingum um það sem verður á vegi eða vegleysu hjólreiðamanna á meðan á þessu átaki stendur hvort sem það er á textaformi eða í líki mynda.