fimmtudagur, 29. maí 2008

Að sitja kyrr í umferðinni

Það er í sjálfu sér í frásögur færandi að ég notaði bílinn sem samgöngutæki til vinnu í morgun. Það kom mér á óvart hversu mikil umferðin er og það fer töluverður tími í bið eftir að bílaröðin mjakist áfram. Þetta er ólíkt því að þeysa til vinnu á hjóli þar sem heyrir til undantekninga að maður nemi staðar. Bílferðin úr Salahverfi niður í Borgartún er fljótlegri en að hjóla sömu leið en á hjólinu er maður alltaf á ferðinni. Vorið og sumarið fer síður framhjá manni á hjóli, breytingar á gróðri frá degi til dags eru nánast áþreifanlegar þar sem trjágreinar slúta yfir hjólastíginn. Mismunandi blómategundir eru að blómstra í kantinum og fuglar flögra þvers og kruss yfir stíginn og kanínur bíta gras í Elliðaárdalnum. Fyrir náttúruunnandann er því hjólaferðin ákjósanleg svo ekki sé minnst á umhverfisvænleika þessa samgöngumáta. En þetta er líka ábending um að afar æskilegt er að hjólaleiðir liggi um græn svæði þar sem náttúran skartar fjölbreytileika sínum.

þriðjudagur, 27. maí 2008

Ef ég væri guð

Þessi færsla hefur ekkert með málefni hjólreiðamanna að gera, en taldi að hún gæti þótt gagnast einhverjum. Hún sýnir á svolítið spaugilegan hátt hvernig er komið fyrir okkar allsnægtarþjóðfélagi. Dóttir mín, 9 ára, spurði mig um helgina eftirfarandi spurningu: "Pabbi, ef þú værir guð, myndir þú láta krónuna hækka?"
Ekki var spurt um viðbrögð mín við náttúruhamförum í Kína og Búrma, matarskorti í Afríku og mannréttindabrot víða um heim. Nei, það voru efnahagsmálin á Íslandi!! Það gera börnin sem fyrir þeim er haft.

ps. búinn að selja bílinn, nýbygginguna, PS3, snjósleðan, sumarhúsið, Armani jakkafötin, motorcross hjólin o.fl. til að öðlast innri ró!

mánudagur, 26. maí 2008

Keppninni lokið - hjólum áfram, bloggum

Dyggir lesendur og hjólagarpar bloggsins þurfa ekki að örvænta. Við munum halda áfram okkar færslu á dag þangað til að þrekið þrýtur. Margir úr okkar hópi munu líka halda áfram að hjóla þótt einhver svindl keppni sé búin. Það væri nú gott að heyra frá fólki, hvort það ætli sér að halda áfram að hjóla út sumarið a.m.k. Svo þegar haustið kemur getum við farið að tala um veður- og hálkuvarnir. Það býður upp á mikla vöruumfjöllun sem er skemmtileg.
Í sumar verður fókusinn meira á vana og hegðun hjólreiðamannsins auk umræðu um hjólreiðakerfið. Vonandi umræðunni til upplyftingar og okkar eigin skilningi á þessu samgöngufyrirbæri sem hjólreiðar eru.

föstudagur, 23. maí 2008

Hjól og sviti

Hið eilífa viðfangsefni hjólreiðamannsins sem er á leið til vinnu er sviti. Þessi náttúrulegi kælivökvi sem líkaminn myndar þegar hann hitnar inniheldur að mestu leyti vatn en einnig uppleyst sölt og mismikið af úrgangsefnum. Þetta væri í sjálfu sér ekki vandamál ef um hreint vatn væri að ræða, þá þyrfti ekki annað en létta sveiflu með handklæði og málið leyst. En það vill loða við svita að honum fylgir lykt sem myndast þegar bakteríur byrja að vinna með þetta mjög svo áhugaverða efni. Þessi lykt fellur fólki misvel í geð og framleiðandi eða eigandi lyktarinnar ekki alltaf meðvitaður um viðhorf annarra til hennar. Hér verður ekki fjallað um áhrif svitalyktar á hormónamyndun gagnstæðs kyns.

Á þessu eru nokkrar lausnir. Ein er að skola af sér svitann í þar til gerðu steypibaði eða sturtu. Þessi lausn kallar hins vegar á auka klæðnað og aðstöðu til þvotta auk þess tíma sem fer í tilstandið.

Önnur lausn er að stilla hraða í hóf. Minnka hitamyndun líkamans og þannig koma í veg fyrir svitamyndun. Þetta er löngu viðurkennd aðferðafræði og sýnt fram á að tímamismunurinn oftast hverfandi þegar allt er talið.

Þessu til viðbótar getur verið gagnlegt að stilla klæðamagni í hóf, gefa lofti færi á að leika um líkamann og kæla hann þannig.

Eins og þeir sem reynslu hafa af hjólreiðum vita þá getur þetta verið hægara um að tala en í að komast, ekki síst þar sem hjólað er í mishæðum en á brattann vill manni gjarnan hitna í hamsi og þá er ekki að sökum að spyrja.

Bakpokar geta örvað svitamyndun, einkum ef þeir liggja þétt að líkamanum. Þess vegna er val á bakpokum mikilvægt atriði í því að þræða þessa línu milli þess að komast eitthvað áfram og að svitna. Til eru bakpokar sem leggjast ekki að bakinu nema á mjög takmörkuðu svæði en eru engu að síður mjög þægilegir.

Að lokum er rétt að það komi fram að tilhneiging til svitamyndunar er talsvert breytileg milli einstaklinga.

fimmtudagur, 22. maí 2008

Skipulag lífs hjólreiðamanns


Hvað stendur í vegi fyrir því að fólk hjóli? Mér þykir það sýnt og sannað að þeir sem einhvern tímann hafi hjólað til og frá vinnu séu líklegri til að hjóla einhvern tímann aftur. Þeir sem aldrei hafa hjólað til vinnu eru erfiður hópur að sannfæra. Augljóslega er einhvers konar þröskuldur sem fólk stígur ekki svo glatt yfir. Sá þröskuldur er að kunna að skipuleggja sig.
Já það er rétt! Það eru ekki gæðin á hjólinu, glansinn á gallanum eða umferðarkerfið sem standa í vegi fyrir að fólk setjist á bak. Þessir hlutir geta hugsanlega haft áhrif á það hversu lengi fólk endist á götunum sem hjólreiðafólk. En fólk veit ekkert um þessa hluti áður en það hefur prófað og því skipta þeir engu máli þá. Að kunna að skipuleggja daginn sinn, ferðir og útbúnað sem hjólreiðamaður krefst ákveðinnar útsjónarsemi og umhugsun sem bíllinn krefst ekki af okkur í eins miklu mæli. Það er ekki beinlínis skemmtilegt að fatta það nýkominn í vinnuna, sveittur á hjólinu, að maður hafi gleymt mikilvægum hlut heima.
Hjólreiðamaðurinn er mjög mikill homo economicus hvað varðar ferða og leiðaval. Vanur hjólreiðamaður er líkt og vatn, velur sér stystu leið minnstu mótstöðu að marki sínu. Ef maður ætlar að stoppa á tveimur eða þremur stöðum á leiðinni heim á hjóli þá er maður búinn að velja leiðina í huganum nokkuð gaumgæfilega áður en maður leggur í hann. Einhvers staðar sá ég rannsókn á bílafólki sem leiddi í ljós að ökumenn í verslunarferð hafa ekki hugmynd um hvert þeir eru að fara eða hvernig þeir ætli að komast á leiðarenda þegar lagt er af stað. Hjólreiðamaðurinn hefur ekki bensín að brenna í svoleiðis vitleysu, hann lætur hverja kaloríu telja.
Hjólamaðurinn þarf líka að velja sér föt og/eða pakka með sér eftir aðstæðum. Í Kaupmannahöfn þótti það fullkomlega eðlileg hegðun meðal samstúdenta minna að hafa hlífðarfatnað til reiðu í bakpokanum ef það skyldi fara að rigna. Það krafðist ekki mikillar hugsunar að pakka regnbuxum fyrir þetta fólk. Nýjum hjólreiðamanni dytti þetta jafnvel ekki í hug en þyrfti að gera stressaða dauðaleit að plöggunum annars.
Það er með hjólreiðar eins og allt annað að því fylgir lærdómskúrfa, brött í byrjun en aflíðandi. Kannski getum við hjálpað nýjum félögum að tækla þessa kúrfu með auðveldari hætti ef við söfnum saman góðum ráðum. Tjáið ykkur!

miðvikudagur, 21. maí 2008

Auga tígursins

Ég hef því miður slegið örlítið slöku við síðustu tvo morgna. Afsakanir á hreinu, en þetta gengur ekki lengur. Mig vantar hvatningu. Það er erfitt að fá hvatningu þegar maður les skráningartöfluna. Ég með mína 2 x 3 km, meðan nokkrir eru með 2 x13 km. Það er ljóst að ef við fáum verðlaun mun fyrirliðinn ekki segja í míkrafóninn að sigurinn væri fyrst og fremst fyrir dugnað minn og ástundun. Nei, það er nokkuð ljóst.
Hins vegar má ég eiga það að í dagdraumum mínum er fullt af flottum og sigurreyfum myndbútum. Til dæmis sé ég fyrir mér að þegar ég kem inn í VSÓ síðasta dag keppninnar, með hjálminn, sveittur og blautur eftir ferðina að þá heyrist fyrst einmanna klapp. Síðan fjölgar klöppunum og á endanum hafa allir í fyrirtækinu ásamt viðskiptavinum staðið á fætur og klappa fyrir mér. Stefán, Stefán, Stefán. Í Ipodinum heyrist "Eye of the Tiger". . . . . Stundum er maður helvíti flottur.

Frjósama Reykjavík


Gönguferð mín til vinnu er álíka löng og spölurinn sem ég gekk frá kerskála til mötuneytis hér á árum áður í Straumsvíkinni. Helsti munurinn er kannski sá að meiri gróska er á núverandi gönguleið en þar spretta heilu skiltin upp úr gróðurtorfunum.